154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:24]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið hafi hlutverki að gegna á fjölmiðlamarkaði, t.d. í gegnum Ríkisútvarpið, einfaldlega vegna þess að Ríkisútvarpið á að vera sterkt þar sem er markaðsbrestur að öðru leyti, þ.e. að framleiða efni sem að öðrum kosti yrði ekki framleitt, mögulega sjá um öfluga fréttamiðlun og annað í þeim dúr. En það má ekki vera á kostnað annarra miðla í sjálfu sér eins og við hljótum flest að vera sammála um.

Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að þetta er sennilega tímabundið ástand. Tekjumódel miðlanna munu kannski skýrast eftir því sem við áttum okkur betur á hvaða möguleika tæknin getur gefið okkur. En af því að það er verið að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í gegnum þjónustusamninginn og það er búið að tala um það líka að ríkið muni bæta Ríkisútvarpinu upp tekjutapið — nú er það auðvitað ekki þannig að Ríkisútvarpið þurfi að vera einhver fasti, það má örugglega velta fyrir sér hlutverkinu og athuga hvort það komist af með minni fjármuni og það allt saman. En ef það á að bæta Ríkisútvarpinu upp tekjutapið langar mig að spyrja hvort samstaða sé um það meðal ríkisstjórnarflokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur vissulega talað fyrir ýmsum stuðningsaðgerðum en þær eru allt annars eðlis og beinast (Forseti hringir.) kannski ekki beint að Ríkisútvarpinu eins og við þekkjum. Ég spyr því: Er samstaða um að bæta Ríkisútvarpinu upp tekjutapið innan ríkisstjórnarinnar?